Réttur táninga til framhaldsnáms brotinn

Enn eitt vorið eru mannréttindi táninga með fatlanir brotin þegar framhaldsskólarnir neita þeim um skólavist. Nú hafa um 40 ungmenni ekki fengið inngöngu í framhaldsskóla á næstu önn. Engu að síður er réttur ungmenna til framhaldsnáms lögfestur og er sérstaklega fjallað um þau réttindi í Aðalnámskrá framhaldsskóla frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Samkvæmt fjölmiðlum undanfarna daga hafa um 40 börn ekki fengið skólavist í neinum framhaldsskóla. Í fréttum þeirra eru viðtöl við hagsmunaaðila eins og Söru Dögg Svanhildardóttur, verkefnastjóra hjá Þroskahjálp og Gyðu Sigríði Björnsdóttur, móður Dagbjarts Sigurðar Ólafssonar sem var neitað um skólavist í Fjölbraut í Ármúla og Borgarholtsskóla. Það var hins vegar Menntamálastofnun sem sendi honum bréf um synjun í báðum skólum en að unnið væri í málinu.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, viðurkennir að staðan sé óásættanleg. Hann fundaði um málið með öllum skólastjórum framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu og boðar skammtímalausnir fyrir haustið. Ásmundur Daði greindi hins vegar einnig frá því að hann í samstarfi við skólastjórnendur á höfuðborgarsvæðinu væri að vinna að lausn á framhaldsskólagöngu ungmenna með fatlanir og á von á að þau úrræði verði í boði haustið 2024.