Barnsmissir

Öll andlát ber að tilkynna til sýslumanns eins fljótt og auðið er. Aðstandendur hins látna fá dánarvottorð frá heilbrigðisstofnun eða lækni þess látna. Á þessari síðu eru nokkur atriði er varða fyrstu viðbrögð við barnsmissi og vísað á vefslóðir til nánari upplýsinga.

Sorgarleyfi og fjárstyrkur

Samkvæmt lögum nr. 77/2022 um sorgarleyfi á foreldri sem hefur verið í samfelldu starfi sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að sex mánuði við barnsmissi. Réttur til sorgarleyfis vegna andvana fæðingar og fósturláts er skemmri. Í 3. gr. Orðskýringar er skilgreiningar á merkingu hugtaka í lögunum, svo sem barn, barnsmissir, hvað telst fullt nám og hvað telst samfellt starf. Hugtökin sorgarleyfi og sorgarstyrkur eru einnig útskýrð:

  • Sorgarleyfi: Leyfi foreldris frá launuðum störfum á innlendum vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis, sem og við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu.
  • Sorgarstyrkur: Styrkur til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldris í fullu námi í kjölfar barnsmissis, sem og við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu.

Umfjöllunin hér er einungis til að vísa á rétt til sorgarleyfis, sorgargreiðslna og sorgarstyrks, greina frá því að Vinnumálastofnun annast greiðslur vegna sorgarleyfis og loks að vísa á lögin sjálf. Lögin eru skilmerkilega sett upp í átta köflum og aðgengileg til lesturs þar sem hver kaflanna átta hefur skýrandi heiti og allar lagagreinar kaflanna hafa skýrar fyrirsagnir. Fjölmargar forsendur eru fyrir réttindunum í lögunum og útskýringar á hverjir hafa réttindi samkvæmt þeim. Það er brýnt að lesa lögin sjálf til að fá allar upplýsingar.

Sveitarfélögin veita styrki við útför við ákveðin skilyrði. Styrkirnir eru nokkuð misjafnir eftir sveitarfélögum. 

Andlátstilkynning

Andlát ber að tilkynna eins fljótt og kostur er til þess sýslumanns þar sem hinn látni átti lögheimili á dánardegi.

Útför má ekki fara fram fyrr en prestur eða sá sem annast hana hefur fengið vottorð um að andlátið hafi verið tilkynnt til sýslumanns. Aðstandandi framvísar staðfestingunni.

Sýslumanni er aðeins heimilt að taka við andlátstilkynningu og gefa vottorð um hana, ef framvísað er einhverju eftirtalinna sönnunargagna um andlátið. Þetta gildir hvort sem hinn látni lést hérlendis eða erlendis:

  • Dánarvottorði útgefnu af lækni.
  • Annars konar embættisvottorði útgefnu af opinberum starfsmanni sem er heimilt að votta um andlátið.
  • Lögregluskýrslu.
  • Dómi um lát horfins manns.

Ef sönnunargagn um andlát er gefið út erlendis er sýslumanni heimilt að óska eftir þýðingu skjalsins ef þarf. Á vef island.is má fylla út og senda rafræna tilkynningu um andlát.

Dánarvottorð

Læknir afhendir aðstandendum hins látna dánarvottorð sem þarf að afhenda á skrifstofu sýslumanns í umdæmi þar sem hinn látni átti lögheimili. Sýslumaður áframsendir dánarvottorðið til Þjóðskrár Íslands þar sem viðkomandi einstaklingur er skráður látinn í þjóðskrá.

Sá sem pantar dánarvottorð frá Þjóðskrá þarf að hafa einhver tengsl við þann látna. Vottorðið sýnir dánardag,  dánarstað og hjúskaparstöðu við andlát. Dánarvottorð er pantað hjá Þjóðskrá í gegnum island.is.

Sorgarmiðstöð

Markmið Sorgarmiðstöðvar er að styðja syrgjendur og þá sem vinna að velferð þeirra. Þjónustan felst í stuðningi, ráðgjöf, upplýsingaþjónustu og fræðslu. Á vef Sorgarmiðstöðvarinnar er upplýsingar um sorgina og allt sem henni fylgir, t.d. hagnýtar upplýsingar um að hverju þarf að huga í tengslum við útför.  Sorgarmiðstöðin er öllum opin. Síminn 551-4141 er opinn frá 10.00 – 14.00 virka daga.

Sorg og sorgarviðbrögð, bæklingur Sorgarmiðstöðvar.

Netfang: sorgarmidstod(hjá)sorgarmidstod.is