Skattframtal

Á vefsíðu Ríkisskattstjóra má sjá allar upplýsingar er varða skattgreiðslur einstaklinga undir flipanum, „Einstaklingar“ á valstikunni. Síminn hjá Skattinum er 442-1000. Starfsstöðvar Ríkisskattstjóra eru víða um land.

Slysatrygging við heimilisstörf á skattframtalinu er afar ódýr, kostaði 550 kr. árið 2019, en getur skipt sköpum ef fólk slasast á heimili sínu. Reiturinn þar sem óskað er eftir tryggingunni er hægra megin við nafn framteljanda og heimilisfang hans.

Skattfrjálsar tekjur

Á vefsíðu Skattsins eru upplýsingar um skilyrði fyrir heimild til lækkunar á tekjuskatts- og útsvarsstofni. Lækkun á skatti kemur til dæmis til álita vegna langveikra barna og í sumum tilvikum er fólk með skattfrjálsar tekjur eða aðrar ívilnanir.

  • Skattfrjálsar greiðslur frá TR og SÍ:  Nokkrar tegundir greiðslna frá Tryggingastofnun og Sjúkratryggingum eru ekki taldar sem skattskyldar tekjur: Barnalífeyrir, barnsmeðlag, bifreiðastyrkur, dánarbætur vegna slysa, styrkir til kaupa á sérfæði, styrkir til tækjakaupa fatlaða, umönnunargreiðslur, uppbætur á lífeyri, örorkubætur vegna varanlegrar örorku.
  • Skattfrjálsar greiðslur frá sveitarfélögum:  Einstaka greiðslur sveitarfélaga til einstaklinga eru ekki skattskyldar: Dagvistunargreiðslur, heimagreiðslur, húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur.
  • Vinningar, verðlaun og gjafir:  Í stöku tilvikum þarf ekki að greiða skatt af vinningum, verðlaunum og gjöfum þótt almenn reglan kveði á um skattskyldu. Hér er heillavænlegast að kynna sér á vefsíðu Skattsins hvaða Vinningar, verðlaun og gjafir falla ekki undir almennu regluna.
  • Aðrar skattfrjálsar tekjur:  Nokkrar aðrar tegundir tekna eru ekki skattskyldar samkvæmt lögum: Dánarbætur, dvalar- og ferðastyrkir til jöfnunar á námskostnaði, eigin aukavinna við íbúðarhúsnæði, framfærslulífeyrir frá fyrrverandi maka, heiðurslaun – heiðursverðlaun, iðgjald í lífeyrissjóð, meðlagsgreiðslur með börnum, miskabætur og skaðabætur.

Nokkur dæmi um reglur um lækkun skatta:

  • Sá sem er með á sínu framfæri ungmenni (16 - 21 árs) sem er í námi getur átt rétt á lækkun. Með námi í þessu sambandi er átt við nám sem ekki veitir rétt til námslána.
  • Það er mögulegt að einstaklingur fái lækkun vegna vandamanna sem eru á hans framfæri.
  • Hægt er að sækja um lækkun vegna verulegra útgjalda á framfærslukostnaði fatlaðs eða langveiks barns
  • Hægt er að sækja um lækkun ef veikindi, slys, ellihrörleiki eða mannslát valda verulega skerðingu á greiðsluþoli einstaklings.
  • Húseigendur athugið að ef húseign er seld innan tveggja ára er söluhagnaðurinn að fullu skattskyldur. Sjá nánar 2. málsgrein 17. greinar laga um tekju- og eignaskatt

Til að sækja um lækkun skatta (ívilnun) er fyllt út eyðublað 3.05 „Umsókn um lækkun“ sem er neðst á vefsíðunni undir fyrirsögninni „Ítarefni“.

Öll fylgiskjöl fyrir einstaklinga árið 2023 eru listuð upp á vefsíðu skattsins. Ágætt er að renna yfir listann til að glöggva sig betur á framtalinu áður en það er fyllt út og sent til Skattsins. Þessi vefsíða verður án efa uppfærð fyrir framtöl komandi ára. Vefsíða Skattsins fyrir einstaklinga er mjög aðgengileg þar sem allt efnisyfirlitið er sýnilegt á stiku vinstra megin á síðunni og hverfur ekki þegar kafli er valinn í stikunni.

Skattar af lífeyrissjóðstekjum

Á fræðsluvef Landssamtaka lífeyrissjóða eru birtar reglur um skatta af lífeyrissjóðstekjum sem gott er að hafa í huga við útfyllingu skattframtalsins. Svör við algengum spurningum um skatta af lífeyristekjum eru undir flipanum Spurt og svarað.

Útvarpsgjald

Útvarpsgjald er lagt á alla einstaklinga 16-70 ára sem eru með tekjur yfir tekjumörkum. Tekjuviðmið breytist milli ára. Um fjárhæð útvarpsgjalds og tekjumörk einstaklinga má lesa á vef ríkisskattstjóra.  

Undanþegnir útvarpsgjaldi eru elli- og örorkulífeyrisþegar sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuársins.


Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana.