Leiguíbúðir fyrir sjúklinga og aðstandendur

Hér er yfirlit yfir leiguíbúðir félagasamtaka, kaupleiguíbúðir, skammtímaleigu, endurhæfingaríbúðir og búsetu með stuðningi.

Íbúðir til leigu

Á vef Landspítalans er vísað á íbúðir sem spítalinn hefur til umráða til afnota fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Blindrafélagið

Í húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17 eru um 20 leiguíbúðir leigðar eru út til félagsmanna í langtímaleigu. Auk þess eru tvær gestaíbúðir og eitt gestaherbergi í skammtímaleigu fyrir félagsmenn Blindrafélagsins og aðstandendur þeirra.  Sjá um leiguíbúðir á vefsíðu Blindrafélagsins.

Brynja, leigufélag

Brynja er sjálfseignarstofnun sem á og rekur íbúðir fyrir öryrkja. Leigufélagið á nú 860 íbúðir og er gert ráð fyrir að næstu árin verði um 20 til 30 nýjar íbúðir keyptar á ári. Umsækjandi þarf vera með 75% örorku. Allar nánari upplýsingar eru á vefsíðu Brynju.

MND félagið

MND félagið hefur til leigu þriggja herbergja íbúð í SEM húsinu við Sléttuveg 3, 108 Reykjavík. Úthlutun er í nánu samráði við tauga- og lungnalækningadeildir LSH. Íbúðin er vel búin fyrir hjólastólanotendur; sjúkrarúm, stoð við rúm, lyftari fyrir segl, sturtustóll á hjólum, snúningslök, við salerni eru handstoðir og hækkanir til að setja á  salernið. Sængurföt og handklæði fylgja. Þrif og þvottur einu sinni í viku eða að lokinni hverri leigu.  

Notkun íbúðarinnar er hugsuð fyrir fólk sem þarf að leita sér lækninga í borginni en þarf ekki endilega að leggjast inn vegna rannsókna eða slíks, maka og ættingja inniliggjandi sjúklinga og fólk sem þarf að flytja að heiman á meðan unnið er að breytingum á heimili þess. Íbúðin er kjörin til að þjálfa fólk og aðstoðarfólk þess, af spítala og fyrir búsetu heima. Ef fólk vantar aðgengilega íbúð í stuttan tíma má senda fyrirspurn á netfangið gudjon(hja)mnd.is og síma 823 7270.

MS-félagið

MS félagið er með eina tveggja herbergja íbúð til útleigu sem er staðsett að Sléttuvegi 9, 108 Reykjavík. Íbúðin er ætluð félagsmönnum og fjölskyldum þeirra. Nánari upplýsingar um íbúðina má finna á vefsíðu félagsins

SEM - Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra

Markmið SEM samtakanna eru að byggja og reka félagslegt íbúðarhúsnæði sem taki tillit til sérþarfa hreyfihamlaðra, handa félögum SEM. Einnig að safna, taka við og ráðstafa fé til byggingar og reksturs félagslegra íbúða, sameignar íbúðarhúsa, nauðsynlegrar aðstoðar við íbúana eða annarra skyldrar þjónustustarfsemi. 

Sem samtökin hafa innréttað herbergi í húsi félagsins sem þau leigja til félagsmanna og aðstandenda þeirra í skammtímaleigu. Leigutíminn er frá einum sólarhring til viku í senn. Herbergið er innréttað með það í huga að nægt pláss sé fyrir hjólastólanotendur.  Í herberginu er eitt rúm af stærðinni 140 x 200 cm, sturta og salerni sem er hannað með hjólastólanotendur í huga.  Engin hjálpartæki fylgja en hægt er að hafa samband ef þörf er á lyftara.

Herbergið er kjörið fyrir aðstandendur sem ferðast utan að landi til að heimsækja félagsmenn. Vinir og vandamenn geta einnig fengið herbergið leigt í gegnum félagsmenn samkvæmt reglum. Hægt er að panta herbergið eða fá frekari upplýsingar með því að senda fyrirspurn á netfangið herbergi(hja)sem.is 

Þá eiga samtökin orlofsíbúð á Akureyri sem þau leigja út til félagsmanna

Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra

Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra hefur í gegnum árin leigt út nokkrar íbúðir í Sjálfsbjargarhúsinu Hátúni 12, 105 Reykjavík aðallega til hreyfihamlaðs fólks.  Smá saman hafa íbúar sem eru í þjónustu Sjálfsbjargarheimilisins (SBH) verið að flytja úr herbergjum í leiguíbúðir sem hafa losnað og almennt eru því íbúðir ekki að fara á hinn almenna markað. Senda má fyrirspurn í tölvupósti.

Félagslegt húsnæði á vegum sveitarfélaga

Mörg sveitarfélög eiga félagslegt leiguhúsnæði og/eða þjónustuíbúðir. Nánar um félagslegt húsnæði

Búseta með stuðningi

Sjálfsbjargarheimilið

Sjálfsbjargarheimilið (SBH) er með 35 búseturými fyrir hreyfihamlað fólk á aldursbilinu 18-67 ára. Búsetan er blönduð. Einstaklingsherbergjum hefur skipulega verið að fækka og íbúar í þjónustu SBH hafa flutt í ltilar íbúðir. Þá hefur SBH verið með tvö herbergi til skammtímadvalar. Íbúar SBH sem búa í íbúð með stuðningi SBH, sjálfstæðri búsetu með stuðningi stendur, fá greiddan lífeyri, viðkomandi greiðir húsaleigu og kaupir þjónustu og fæði af SBH á grundvelli endurhæfingar og/-eða hæfingarsamnings sem gerður er við hann.  Sjá nánari upplýsingar á https://sbh.is/endurhaefing/ 

Nánari upplýsingar veitir:

  • Sviðsstjóri hjúkrunar SBH, Alda Ásgeirsdóttir: sími: 5500-330 - tölvupóst: Alda(hjá)sbh.is

Endurhæfingaríbúðir/þjálfunaríbúðir

Endurhæfingaríbúð fyrir blinda og sjónskerta

Blindrafélagið á endurhæfingaríbúð fyrir blinda og sjónskerta, með búsetuendurhæfingu gefst einstaklingum tækifæri til að öðlast færni við að halda heimili og fá til þess einstaklingsmiðaða þjálfun og kennslu. Þeir sem hafa áhuga á að komast inn í slíka íbúð hafa samband við ráðgjafa sími: 545-5800.

Þjálfunaríbúð Grensásdeildar

Grensásdeild Landspítalans er með þjálfunaríbúð á endurhæfingardeildinni. Þar fá einstaklingar deildarinnar þjálfun í að hugsa um sjálfa sig heima eða við að prófa hjálpartæki áður en kemur að útskrift.  Skjólstæðingarnir geta verið í íbúðinni allt að fjórar vikur.

Kaupleiguíbúðir

Búseti

Með búseturétti hjá Búseta lágmarkar íbúi fjárbindingu sína í fasteign og kaupir búseturétt sem tryggir honum öryggi til búsetu eins lengi og honum hugnast og fær þjónustu er tengist viðhaldi fasteignar.  Ekki er hægt að segja viðkomandi upp húsnæðinu svo framarlega sem staðið er í skilum með mánaðarlegt gjald og íbúi hlýtur reglum félagsins. Nánar á vefsíðu Búseta

Húsnæðissamvinnufélagið Búmenn

Tilgangur Búmanna er að láta byggja hentugt gott húsnæði fyrir félagsmenn sína og hafa umsjá með rekstri þeirra. Með magnkaupum nær félagið verði íbúðanna töluvert niður sem skilar sér beint til notendanna m.a. í formi lægri lána. Nánar á vefsíðu Búmanna.


Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja