Styrkur til kaupa á hjálpartæki

Sjúkratryggðir eiga rétt á styrkjum til kaupa á hjálpartækjum samkvæmt Reglugerð um styrki vegna hjálpartækja nr. 706/2021 með síðari breytingum (síðast breytt 1. mars 2022). Greiðsluþátttakan nær til hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða (3. gr.). Í fylgiskjali með reglugerðinni eru tilgreind hjálpartæki sem falla undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga og hlutfall greiðsluþátttöku í hverri tegund hjálpartækja. Á vef Sjúkratrygginga er einnig listi yfir fyrirtæki sem eru með samninga við SÍ vegna kaupa á hjálpartækjum.

Á vef Sjúkratrygginga er einnig Upplýsingahefti um samninga og vörulista þar sem vísað er á pdf-skjal fyrir hvern af fimm flokkum hjálpartækja skv. flokkun SÍ. Fjallað er um reglugerð nr. 706/2021, útdráttur úr fylgiskjalinu, gerðir samningar, fyrirtæki með samning við SÍ og fleira.    

Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra heldur úti hjálpartækjaleigu þar sem fólk getur leigt hjálpartæki til lengri eða skemmri tíma. Á vef þeirra eru einnig heilmiklar upplýsingar um hjálpartæki

Útdráttur úr reglugerð 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja

Sjúkratryggingar veita sjaldnast styrki fyrir tveimur hjálpartækjum sömu gerðar (3. gr.). Undantekning eru styrkir:

  • til mikið fatlaðra barna og ungmenna sem þurfa einnig hjálpartæki í leikskóla, grunnskóla eða á þjálfunar- og dagvistunarstofnun.
  • til barna sem eiga fasta búsetu á tveimur stöðum.

Styrkir eru ýmist greiddir sem ákveðið hlutfall af verði hjálpartækis og/eða ákveðin fjárhæð til kaupa á hjálpartæki (4 gr.). Sjúkratryggingar veita innkaupaheimildir sem gilda í eitt, fimm eða tíu ár vegna einnota hjálpartækja en við ævilangt sjúkdómsástand er heimilt að hafa gildistímann lengri (4. gr.).

Heyrnar- og talmeinastöð útvegar hjálpartæki fyrir heyrnarskerta, heyrnarlausa og fólk með heyrnar- og talmein (6. gr.). Hver einstaklingur getur mest fengið styrk hjá SÍ eða greiðsluþátttöku hjá Heyrnar- og talmeinastöð fyrir tveimur heyrnartækjum, eitt fyrir hvort eyra, á fjögurra ára fresti. Undantekning frá fjögurra ára reglunni er ef  háls-, nef- og eyrnalæknir greinir umtalsverða breytingu á heyrn skv. (rgl. 969/2015, 1. gr.) (gr. 6). 

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu úthlutar sérhæfðum hjálpartækjum skv. verklýsingu í lögum nr. 160/2008 (6. gr.).

Sjúkratryggingar greiða ekki styrki vegna kaupa á hjálpartækjum til náms og atvinnu.  Sveitarfélög þar sem umsækjandi hefur lögheimili annast umsóknir um hjálpartækja til náms fyrir 16 ára og eldri og atvinnu fyrir 18 ára og eldri skv. 15. gr. laga nr. 38/2008. Um nemendur með sérþarfir í grunnskóla er stuðst við 17. gr. laga nr. 91/2008.  Undantekninga í 3. mgr. 3. gr. laga 760/2021 er getið hér í fyrstu efnisgrein þessa útdráttar.

Sjúkratryggingar greiða styrki vegna ökuþjálfunar ef ökuhæfnismat hefur leitt í ljós nauðsyn ökuþjálfunar vegna sérhæfðra hjálpartækja til aksturs bifreiðar (8. gr.). Styrkurinn er að hámarki 10 ökutímar en undantekningar eru frá því. Styrkurinn er 70% af samþykktum kostnaði og er eingöngu veittur til ökuþjálfunar á eigin bifreið. Skilyrði fyrir styrk til ökuþjálfunar:

  1. Umsækjandi hefur sjálfur bílpróf og er skráður eigandi bifreiðar. Ef hann hefur ekki þá þegar bílpróf þarf hann að hafa staðist skriflega prófhluta ökuréttindanna.
  2. Fyrir liggur mat um nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar.
  3. Mat á ökuhæfni liggur fyrir. (8. gr.)

Sækja þarf um styrk til kaupa á hjálpartæki á sérstökum umsóknum Sjúkratrygginga áður en hjálpartækið er keypt (9.gr.). Við mat á umsókninni er metið heildarástand umsækjandans.  Allir reikningar þurfa að fylgja umsókninni og ýmist vottorð heilbrigðisstarfsmanns eða læknis.

Styrkir eru aldrei ákvarðaðir lengra en tvö ár aftur í tímann frá að fullgild umsókn er lögð inn (10. gr.). Sjúkratryggingar eiga að aðstoða umsækjendur við val á hjálpartækjum og við afgreiðsluferlið, uppsetningu tækja o.fl. eða sjá til þess að aðrir aðilar annist þjónustuna. Hjálpartækjum sem hægt er að endurnota skal skila aftur (11. gr.).

Um hjálpartæki, útdráttur úr fylgiskjali rgl. 760/2021.

Hjálpartæki til meðferðar og þjálfunar 

Hjálpartæki við öndunarmeðferð

Einstaklingar í heimahúsum geta fengið súrefnisþjónustu á vegum Sjúkratrygginga (súrefni á þrýstihylkjum, súrefnissíur og fylgihluti) og ráðgjöf varðandi þjónustu. Þetta á einnig við um öflun, umsjón og rekstur CPAP-, BIPAP- og rúmmálsstýrðra öndunarvéla. Öndunarvélarnar eru greiddar að fullu. Skiptanlegir fylgihlutir og rekstrarvörur fyrir vélarnar ásamt þjónustu er einnig greidd að fullu nema fyrir notendur CPAP-öndunarvéla. Í þeim tilvikum er greiddur kostnaður fyrir lífeyrisþega og börn/unglinga umfram kr. 440 af mánaðarlegum meðalkostnaði og fyrir aðra umfram kr. 2.650

Gómur vegna kæfisvefns er samþykktur að undangenginni svefnrannsókn. Greitt 70% verðsins en að hámarki 45.000 kr.

Veitt er innkaupaheimild vegna fylgihluta við öndunarhjálpartæki, þ.e. fyrir öndunarvélar, sogtæki, hóstavélar og öndunarmæla, fylgihluti og varahluti í tækin auk viðgerða á þeim. Lífeyrisþegar þurfa að framvísa viðeigandi skírteini/skilríkjum. Greiðsluþátttakan er oftast 100% nema Gómurinn vegna kæfisvefns og tæki til að bæta öndun eru greidd 70%. Þó eru innöndunartæki sem eru notuð vegna Cystic Firbrosis eru greidd að fullu.

Sjá nánar um greiðsluþátttöku og tækin í fylgiseðli í kafla 0403 Hjálpartæki við öndunarmeðferð.

Hjálpartæki við blóðrásarmeðferð:

Við að a.m.k. 18 mmHg þrýsting er greitt fyrir þrjú pör af þrýstisokkum á 12 mánaða tímabili og tvo þrýstinemar. Aðeins er greitt fyrir þrýstisokka/þrýstibúnað vegna bruna og langvinnra alvarlegra bláæða/sogæðavandamála eða langvarandi og mikillar bjúgsöfnunar vegna lömunar. 100% er greitt vegna bruna. Þrýstisokkar og þrýstibúnaður er greiddur 90 fyrir börn en 70% fyrir fullorðna. Sjá nánar um hjálpartækin við blóðrásarmeðferð og greiðsluhlutfall þeirra í fylgiskjali í kafla 0406 Hjálpartæki við blóðrásarmeðferð.

Hjálpartæki til lyfjaskömmtunar:

Hjálpartæki til lyfjaskömmtunar (sprautubúnaður) eru greidd vegna langvinnra alvarlegra sjúkdóma. Greitt er 90% verðsins fyrir einnota sprautur, nálar og blóðhnífa fyrir börn, unglinga og lífeyrisþega en 70% fyrir aðra. Greiðsla fyrir lyfjapenna og lyfjasprautubyssur er 50%. Almennt er greitt fyrir einn lyfjapenna á ári. Hjá þeim sem nota bæði hraðverkandi og langverkandi insúlín má þó greiða fyrir tvo lyfjapenna á ári. Sjá nánar um hjálpartæki til lyfjaskömmtunar og greiðsluhlutfall þeirra í kafla 0419 Hjálpartæki til lyfjaskömmtunar í fylgiskjali rgl. 760/2021.

 

Búnaður (tæki og efni) til mælinga (efnamælinga):

Einnota rannsóknarbúnaður er greiddur 90% fyrir börn og unglinga og lífeyrisþega en 80% fyrir aðra, þó með hámarki, fyrir efni til blóðsykursmælinga (blóðstrimla) og blóðsykursmæla. Eftirtaldir sjúkratryggðir einstaklingar eiga rétt á greiðsluþátttöku í blóðstrimlum:

a) Þeir sem eru með sykursýki I og nota blóðstrimla til að fylgjast með blóðsykri geta fengið blóðstrimla sem miðast við 10 mælingar á dag eða 3.600 blóðstrimla á tólf mánaða tímabili (72 pakkningar).

b) Þeir sem eru með sykursýki I og nota nema sem skannar/síritar blóðsykur geta fengið að hámarki 200/750/1100/2000/2500 blóðstrimla á tólf mánaða tímabili (4/15/22/40/50 pakkningar). Auk þess getur þessi hópur fengið tiltekinn fjölda nema á tólf mánaða tímabili samkvæmt gagnreyndum viðmiðum.

c) Þeir sem eru með sykursýki II og nota insúlín eða insúlín og lyf í töfluformi sem geta valdið blóðsykursfalli eða eru með meðgöngusykursýki geta fengið að hámarki 1100 blóðstrimla á tólf mánaða tímabili (22 pakkningar) eða fengið nema sem skannar/síritar blóðsykur og þá gildir reglan, sbr. b) hér að ofan.

d) Þeir sem eru með sykursýki II og nota lyf í töfluformi sem geta valdið blóðsykursfalli og þeir sem nota lyf í töfluformi sem ekki valda blóðsykursfalli en vegna læknisfræðilegra röksemda þurfa að mæla blóðsykur geta fengið að hámarki 50 blóðstrimla á tólf mánaða tímabili (eina pakkningu). Á fyrsta ári eftir greiningu geta þeir þó fengið að hámarki 150 blóðstrimla á tólf mánaða tímabili (þrjár pakkningar).

Sjá ítarlegar í fylgiskjali í kafla 0424 Búnaður (tæki og efni) til mælinga (efnamælinga). 

Raförvunartæki

Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir takmarkaðan fjölda af verkjastillandi raförvunartækjum og raförvunartækjum til að meðhöndla þvag- og hægðaleka og raförvunartæki við ökklalömun. 

Hjálpartæki til varnar legusárum

Sérstakur búnaður til varnar legusárum 100% (t.d. viðvörunarkerfi til varnar legusárum).

Stoðtæki (spelkur, gervilimir og bæklunarskór) og gervihlutar aðrir en gervilimir

Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á spelkum og gervilimum.
Á heimasíðu SÍ er að finna upplýsingahefti um samninga og vörulista sem hefur að geyma tæmandi yfirlit yfir allar þær tegundir spelkna og gervilima sem stofnunin tekur þátt í kaupum á fyrir þá sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Við hvert og eitt hjálpartæki í vörulistanum í heftinu kemur einnig fram hvaða fyrirtæki er með samning við stofnunina um kaup á viðkomandi tæki. 

Almennar reglur um spelkur

Við notkun í þrjá til tólf mánuði eru spelkur greiddar 70%. Spelkur fyrir fólk með krabbamein, lamanir (t.d. hemiparesis, poliomyelitis) og hrörnunarsjúkdóma í tauga- og vöðvakerfi (t.d. MS, MND, Guillian Barre sjúkdóm, Parkinsonsjúkdóm) og liðagigt (RA) eru greiddar að fullu svo framarlega sem þær tengjast sjúkdómnum.
Tognanir: Tognanir eru flokkaðar eftir alvarleika. Almenna reglan er sú að spelkur eru ekki greiddar vegna tognunar nema hún sé alvarleg. 

Standgrindur og standbretti

Standgrindur og standbretti eru greidd vegna mikillar lömunar, svo sem vegna heilalægrar lömunar eða mænusköddunar, til varnar vöðvastyttingu eða blóðþrýstingsfalli. 

Gervilimir

Greitt er fyrir tvær innri hulsur á ári. Ef þörf er á fleiri hulsum er þörfin metin hverju sinni. Rökstudd greinargerð þarf að fylgja umsókn ef sótt er um óvenju margar hulsur.

Greitt er fyrir einn gervilim eða eina harða ytri hulsu á ári, þó eftir mati hverju sinni. Ef sótt er um fleiri þarf sérstök greinargerð að fylgja umsókn. Virkir einstaklingar eiga rétt á gervilim til skiptanna til að mæta viðgerðarþörf.

Greiðslur vegna viðgerða á spelkum, skóm og gervilimum

Fyrsta og önnur viðgerð á spelkum á ári eru greiddar að fullu, en síðari viðgerðir 70%.

Fyrsta og önnur viðgerð á gervilimum á ári eru greiddar að fullu, en síðari viðgerðir 70%. Þátttaka í kostnaði við viðgerðir á tilbúnum bæklunarskóm og sérsmíðuðum skóm á eingöngu við ef slit á skóm er ótvírætt afleiðing sjúkdómsástands (t.d. gangandi einstaklingur með ataxíu vegna heilalægrar lömunar (CP)). Að hámarki er greitt fyrir fjórar viðgerðir á tilbúnum bæklunarskóm eða sérsmíðuðum skóm á ári fyrir hvern einstakling.

Breytingar/viðgerðir innan þriggja mánaða frá afhendingu tækis teljast að öllu jöfnu vera innifaldar í aðlögun frá seljanda og er því ekki greitt sérstaklega fyrir þær.

Hryggspelkur

Við notkun í þrjá til tólf mánuði eru spelkur greiddar 70%. Mjúk bakbelti (hryggspelkur) sem notuð eru við minni háttar bakkvillum eru greidd 70%. Hryggspelkur fyrir fólk með krabbamein, lamanir og hrörnunarsjúkdóma í tauga- og vöðvakerfi (t.d. MS, MND, Guillian Barre sjúkdóm, Parkinsonsjúkdóm) og liðagigt (RA) eru greiddar að fullu svo framarlega sem þær tengjast sjúkdómnum. Mjúkir hálskragar eru ekki greiddir af Sjúkratryggingum Íslands. Sjá nánari upplýsingar í Upplýsingahefti um samninga og vörulista. 

Spelkur fyrir efri útlimi

Við notkun í þrjá til tólf mánuði eru spelkur greiddar 70%. Spelkur fyrir fólk með krabbamein, lamanir (t.d. hemiparesis, poliomyelitis) og hrörnunarsjúkdóma í tauga- og vöðvakerfi (t.d. MS, MND, Guillian Barre sjúkdóm, Parkinsonsjúkdóm) og við aflöguliða vegna liðagigtar eru greiddar að fullu svo framarlega sem þær tengjast sjúkdómnum. 

Spelkur fyrir efri útlimi, sem ekki eru bornar á líkamanum

Greitt er 100% fyrir spelkur fyrir efri útlimi, sem ekki eru bornar á líkamanum, fyrir þá sem eru alvarlega fjölfatlaðir og nota að öllu jöfnu einnig sérmótaðan stuðning í sæti.

Spelkur fyrir neðri útlimi

Við notkun í þrjá til tólf mánuði eru spelkur greiddar 70%. Spelkur fyrir fólk með krabbamein, lamanir (t.d. hemiparesis, poliomyelitis) og hrörnunarsjúkdóma í tauga- og vöðvakerfi (t.d. MS, MND, Guillian Barre sjúkdóm, Parkinsonsjúkdóm) og við aflögun liða vegna liðagigtar eru greiddar að fullu svo framarlega sem þær tengjast sjúkdómnum.

Gervihandleggir og -hendur

Fyrsta og önnur viðgerð á gervilimum á ári eru greiddar 100% en síðari viðgerðir 70%.
Samþykkt er hámark ein hörð hulsa (ytri hulsa) og tvær mjúkar hulsur (innri hulsur) á gervilim á ári eða eftir mati. Virkir einstaklingar eiga rétt á gervilim til skiptanna.

Gervifótleggir og -fætur

Fyrsta og önnur viðgerð á gervilimum á ári eru greiddar 100% en síðari viðgerðir 70%.
Greitt er fyrir hámark eina harða hulsu (ytri hulsu) og tvær mjúkar hulsur (innri hulsur) á gervilim á ári eða eftir mati. Virkir einstaklingar eiga rétt á gervilim til skiptanna.

Hárkollur, gervibrjóst og gerviandlitshlutar

Bæklunarskór

Sjúkratryggingar Íslands hafa með samningum viðurkennt ákveðin fyrirtæki til að smíða og selja bæklunarskó (tilbúna bæklunarskó, sérsmíðaða skó og sérsmíðaða hálftilbúna skó).
Með samþykki Sjúkratrygginga Íslands á umsókn um styrk til kaupa á bæklunarskóm getur umsækjandi ákveðið sjálfur við hvert af fyrirtækjunum hann skiptir.
Styrkur er veittur samkvæmt ákveðnum reglum og hámarksfjárhæð hans kemur fram við afgreiðslu umsóknar. Umsækjandi afhendir því fyrirtæki sem hann kýs að skipta við afgreiðsluseðil Sjúkratrygginga Íslands  og fyrirtækið fær greiðslu frá stofnuninni sem nemur andvirði styrksins. Ef umsækjandi kaupir dýrari skó en nemur fjárhæð styrksins greiðir hann fyrirtækinu mismuninn.

Kviðslitsbelti

Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á kviðslitsbeltum. Kviðslitsbelti (nýrnabelti) eru greidd ef skurðaðgerð kemur ekki til greina, síendurteknar aðgerðir bera ekki árangur eða ef um alvarlega nýrnasjúkdóma er að ræða. Kviðslitsbelti eru greidd 70% ef áætlaður notkunartími er skemmri en 12 mánuðir en 100% ef um alvarlegt langvarandi ástand er að ræða.

  •  Hjálpartæki við persónulega aðhlynningu og fatnaður

    Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á bað- og salernistækjum.
    Á heimasíðu SÍ er að finna upplýsingahefti um samninga og vörulista sem hefur að geyma tæmandi yfirlit yfir allar þær tegundir hjálpartækja sem samningarnir hér að ofan ná til og sem stofnunin tekur þátt í kaupum á fyrir þá sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Við hvert og eitt hjálpartæki í vörulistanum í heftinu kemur einnig fram hvaða fyrirtæki er með samning við Sjúkratryggingar Íslands um kaup á viðkomandi tæki. Þátttaka stofnunarinnar í kaupum á ákveðnu hjálpartæki er háð því að tækið sé fengið hjá tilgreindu samningsbundnu fyrirtæki.

    Fatnaður, hjólastólapokar og útislá/regnslá  í hjólastóla

    Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að veita styrk til að útbúa snið fyrir sérsaumaðan fatnað vegna dvergvaxtar og verulegra aflagana. Styrkur er veittur einu sinni, en þó að nýju ef verulegar breytingar verða á ástandi.
    Styrkupphæðir eru eftirfarandi:

    • Vegna dvergvaxtar, 19.000 kr. fyrir skyrtu/jakka/kjól og 9.500 kr. fyrir buxur
    • Vegna verulegrar skekkju í hrygg (ólíkar hliðar), 46.000 kr.
    • Vegna alvarlegs herðakistils, 65.000 kr.
    • Vegna verulegra aflagana á líkama, 83.000 kr.
    • Hjólastóla- og kerrupokar. 100%
    • Útislá/regnslá í hjólastóla/kerrur 100%
    • Varnarbuxur við böðun 100%
    • Snið fyrir sérsaumaðan fatnað 100%, að hámarki sbr. að ofan

     

      •  Hlífðartæki t.d. hjálmar og höfuðhlífar

    Sjúkratryggingar Íslands greiða tæki ef um langvarandi sjúkdómsástand er að ræða (a.m.k. sex mánuðir).  

      • Hjálpartæki til að klæða sig í og úr

     Sokkaífærur 100%
     Fatahaldarar 100%
     Klæðnaðarpinnar/krókar 100%
     Rennilásahjálpartæki 100%
     Hnappakrókar 100%       

      • Hjálpartæki við salernisferðir

    Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á salernistækjum.

      •  Hjálpartæki vegna barkaskurðar

    Hjálpartæki vegna barkaskurðar eru veitt á grundvelli innkaupaheimildar og gildir það eftir atvikum til eins, fimm eða tíu ára í senn. 

      •  Stómahjálpartæki

    Stómavörur eru greiddar 100% eða 70%, þó með hámarki fyrir ákveðnar vörur. Innkaupaheimild er veitt fyrir samþykktar vörur og gildir það eftir atvikum í eitt, fimm eða tíu ár. Við kaup þarf að framvísa skírteini sem nær til viðkomandi vara. Einstök kaup notenda skulu miðast við mest þriggja mánaða birgðir.
    Heimilt er að veita styrk til sérstakra þrýstingsbuxna vegna stóma í stað kviðslitsbelta sem nemur 70% af verði tveggja buxna á ári. 

      • Efni til húðvarnar og húðhreinsunar

    Húðvarnarkrem er greitt að fullu fyrir stómaþega. Húðvarnarkrem fyrir stómaþega er veitt á grundvelli innkaupaheimilidar og gildir það eftir atvikum til eins, fimm eða tíu ára í senn eins og stómavörur. Önnur efni til húðvarnar og húðhreinsunar vegna sára veitir heimahjúkrun heilsugæslunnar.

      •  Þvagleggir

    Þvagleggir eru veittir á grundvelli innkaupaheimildar til eins, fimm eða tíu ára í senn.
    Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á ákveðnum þvagleggjum.
    Greiðsluþátttaka stofnunarinnar í kaupum á þvagleggjum er háð því að þeir séu fengnir hjá tilgreindu samningsbundnu fyrirtæki. 

      • Þvagpokar

    Þvagpokar eru veittar á grundvelli innkaupaheimildar til eins, fimm eða tíu ára í senn. Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á ákveðnum þvagpokum.
    Greiðsluþátttaka stofnunarinnar í kaupum á þvagpokum er háð því að þeir séu fengnir hjá tilgreindu samningsbundnu fyrirtæki. 

      •  Bleyjur

    Bleyjur eru veittar á grundvelli innkaupaheimildar til eins, fimm eða tíu ára í senn.
    Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á ákveðnum bleyjum og tengdum vörum. Að jafnaði greiðir stofnunin ekki bleyjur fyrir börn yngri en þriggja ára en yngri börn en þriggja ára geta þó fengið undanþágu vegna stómaaðgerðar eða hryggraufar (klofins hryggjar).
    Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands í kaupum á bleyjum og tengdum vörum er háð því að þær séu fengnar hjá tilgreindu samningsbundnu fyrirtæki.
    Bleyjur eru veittar sem hjálpartæki við þvagleka/saurleka þegar um er að ræða fjölfötlun/ alvarlega fötlun, stroke/umtalsverðan miðtaugakerfisskaða, alvarlega þroskaheftingu, einhverfu (autismi), alzheimer/dementsia, blöðrukrabbamein/blöðruhálskirtilskrabbamein, margendurteknar eða mjög langvarandi þvagfærasýkingar, blöðrusig/legsig sem verulegt vandamál (aðgerð ekki ráðlögð/ekki árangur), aldraða eldri en 70 ára með veruleg vandamál vegna þvagleka, afleiðingu mikillar lyfjatöku (vegna t.d. geðsjúkdóma) og veruleg vandamál og vegna þvagleka.
    Bleyjur eru ekki veittar vegna áreynsluþvagleka (stressþvagleka) án aðgerðar, smáleka, enuresu, barnsfæðinga, geðsjúkdóma og slitgigtar.

      •  Hjálpartæki vegna hægðaleka

    Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að greiða endaþarmstappa til þeirra sem eiga við hægðaleka að stríða vegna alvarlegs skaða í miðtaugakerfi (s.s. mænuskaða vegna hryggraufar (klofins hryggjar)) eða annars sambærilegs alvarlegs sjúkdómsástands. Greiðsluþátttakan nær einungis til þeirra er stunda sund í hæfingarskyni þegar það er ótvíræður kostur að sundþjálfun sé stunduð vegna viðkomandi fötlunar og/eða þeirra sem nauðsynlega þurfa slíkan búnað til að geta stundað vinnu sína. Stofnunin greiðir 90%, þó að hámarki kr. 1.115 pr. stk. Miðað er við hámark 250 stk. á ári.
    Sjúkratryggingar Íslands greiða endaþarmsrör að fullu vegna alvarlegs og langvarandi vandamáls við hægðalosun. Veitt á grundvelli innkaupaheimildar til eins, fimm eða tíu ára í senn, þó að hámarki kr. 2.230 pr. stk. Miðað er við hámark 12 stk. á ári.

      •  Hjálpartæki við snyrtingu og böðun

    Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir hjálpartæki við snyrtingu og böðun fyrir þá sem eru með sjúkdóma sem valda alvarlegri lömun eða hrörnun, t.d MS, MND, og aðra vöðvarýrnunarsjúkdóma, helftarlömun, Parkinsonsjúkdóm, illvíga RA liðagigt, Spina Bifida svo og einstaklingar með lungna- og/eða hjartasjúkdóma á háu stigi. Skiptiborð eru greidd fyrir fjölfatlaða einstaklinga þar sem þörfin er ótvíræð.
    Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á baðtækjum. 

      • Hjálpartæki við hársnyrtingu
      • Hárþvottatæki, t.d. hárþvottarenna 50%

Gönguhjálpartæki, hjólastólar, hjálpartæki í bifreið, önnur farartæki og hjálpartæki til flutnings

Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á gönguhjálpartækjum, handdrifnum hjólastólum, sérsmíði í hjólastóla og ýmsum fylgi- og aukahlutum í hjólastóla svo og um kaup á lyfturum á hjólum.
Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á sjúkrarúmum og fylgihlutum (m.a. hjálpartæki við flutning fólks, sjá 1230 og snúningshjálpartækjum, sjá 1233).
Á heimasíðu SÍ er að finna upplýsingahefti um samninga og vörulista sem hefur að geyma tæmandi yfirlit yfir allar þær tegundir hjálpartækja sem framangreindir samningar ná til og sem stofnunin tekur þátt í að greiða fyrir þá sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Við hvert og eitt hjálpartæki í vörulistanum í heftinu kemur einnig fram hvaða fyrirtæki er með samning við stofnunina um kaup á viðkomandi tæki. Greiðsluþátttaka í kaupum á ákveðnu hjálpartæki er háð því að tækið sé fengið hjá tilgreindu samningsbundnu fyrirtæki.

    •  Stafir/hækjur

Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir stafi og hækjur fyrir þá sem eru með sjúkdóma sem vald alvarlegri lömun eða hrörnun, t.d MS, MND, og aðra vöðvarýrnunarsjúkdóma, helftarlömun, Parkinsonsjúkdóm, illvíga RA liðagigt, Spina bifida svo og einstaklingar með lungna- og/eða hjartasjúkdóma á háu stigi.
Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á gönguhjálpartækjum.  Greiðsluþátttaka SÍ 100%  

    •  Göngugrindur

Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á göngugrindum. Greiðsluþátttaka SÍ 100%.  

  •  Fylgihlutir við gönguhjálpartæki m.a. stafa og hækjuhaldar, körfur/bakkar á göngugrindur
    •  Hjálpartæki í bifreið

Sjúkratryggingar Íslands greiða styrk til að afla hjálpartækja í bifreið sem nauðsynleg eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða líkamshluta vantar.
Sjúkratryggingar Íslands skulu meta þörf fyrir hjálpartæki og hvaða bifreið henti þeim, þ.e. fólksbifreið eða sendibifreið. Einstaklingur skal leita samþykkis Sjúkratrygginga Íslands á tegund bifreiðar áður en farið er í kaup á bifreið ef hann ætlar að sækja um hjálpartæki í bifreið sína.
Heimilt er að veita einstaklingi styrk til kaupa á sjálfskiptingu og öðrum stýribúnaði (m.a. breytingum á bremsum og bensíngjöf) í eigin bifreið (eða bifreið maka), ef færni er svo skert að hann getur ekki ekið bifreið nema með slíkum búnaði.
Skilyrði fyrir styrkveitingu eru ökuréttindi, regluleg notkun bifreiðar og að mat á ökuhæfni liggi fyrir.
Skilyrði fyrir styrkveitingu á miklum og sérhæfðum breytingum og aðlögun bifreiðar er að einstaklingur sé mjög virkur og stundi vinnu/skóla alla virka daga.
Fullur styrkur er veittur á fimm ára fresti. Ef búnaður er endurnýjaður fyrr er heimilt að veita einn fimmta af fullum styrk fyrir hvert ár sem liðið er frá síðustu styrkveitingu. Styrkur til kaupa á sjálfskiptingu miðast við nýja bifreið og lækkar eftir því sem bifreiðin er eldri.
Lyftur í bifreiðar: Fyrir þá sem eru með verulega skerta færni í öllum útlimum.
Aðlögun bifreiðar til að geta nýtt aukastjórnbúnað, s.s. spegla, læsingar, þurrkur,miðstöð og ljós: Fyrir þá sem eru með verulega skerta færni í öllum útlimum.
Skriðstillir í bifreið: Heimilt er að samþykkja skriðstilli í bifreið með 70% greiðsluhlutdeild
Sjúkratrygginga Íslands, þó aldrei hærri upphæð en kr. 30.000 (ísetning innifalin), til þeirra sem þurfa stjórnbúnað í stýri til að geta ekið bifreið, eru með verulega skerta færni í höndum og þurfa að sækja þjónustu um langan veg.
Bílsæti fyrir börn: Sjúkratryggingar Íslands greiða að jafnaði ekki bílsæti fyrir börn yngri en tveggja ára.  

    •  Hjól

 Sjúkratryggingar Íslands greiða einungis fyrir þríhjól. Þríhjól eru greidd fyrir fjölfatlaða ef ekki er hægt að nota tvíhjól með stuðningshjólum. Að jafnaði er ekki greitt fyrir þríhjól fyrir börn yngri en tveggja ára. 

Hjólastólar

 Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á handdrifnum hjólastólum, sérsmíði í hjólastóla og ýmsum fylgi- og aukahlutum í hjólastóla.

Metið er eftir færni og sjúkdómi hvort umsækjandi á rétt á hjólastól.
Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að greiða fyrir tvo hjólastóla, innihjólastól og útihjólastól, vegna sama einstaklings. Einstaklingar með tvo rafknúna hjólastóla geta í undantekningartilvikum fengið að auki einn handdrifinn hjólastól, s.s. ef viðkomandi er mjög virkur (t.d. sækir skóla, vinnu, dagvistun) og er algjörlega háður hjólastól. Veiting hjólastóla er óháð búsetu í heimahúsi eða á stofnun.
Einstaklingar sem eiga rétt á rafknúnum hjólastól eiga kost á öflugri rafknúnum útihjólastól í stað venjulegs.
Tegund hjólastóls fer eftir færni og virkni viðkomandi. Dæmi: Léttir hjólastólar sem eru með auknum stillimöguleikum á hjólum/setstöðu og þar sem hægt er að taka hjól af eru frekar fyrir virka einstaklinga, einnig hugsanlega fyrir þá sem ekki ráða við annað vegna sjúkdóms og verða sjálfbjarga með léttari stól.
Einfaldir hjólastólar eru almennt frekar fyrir þá sem eru ekki eins virkir, t.d. aldraða á dvalarstofnunum og þá sem ekki eru stöðugt háðir hjólastól.
Mjög virkir hjólastólanotendur geta fengið auka umgang af hjólum á handknúna hjólastóla, þ.e. drifhjól með öflugri dekkjum (fjalladekk) og tilheyrandi framhjól.
Rafknúinn innihjólastóll er stóll ætlaður til að nota innandyra og er einfaldari en rafknúinn útihjólastóll.  Rafknúinn inni- og útihjólastóll er stóll sem hentar til notkunar bæði innan- og utandyra og rafknúinn útihjólastóll er stóll til nota eingöngu utandyra.
Hjólastólar af lager hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands ganga fyrir nýkaupum á hjólastólum.

Rafknúnir hjólastólar

Rafknúnir hjólastólar eru einungis drifnir með rafgeymum, hámarkshraði takmarkast við 10 km/klst. Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir þá ef þeir leiða til aukinnar/bættrar færni. Rafknúinn hjólastóll er samþykktur vegna skaða, sjúkdóms og verulegrar minnkunar á almennri færni ef talið er nauðsynlegt og hentugt að bæta möguleika viðkomandi til að annast daglegar athafnir sínar. Skilyrði er að fyrir liggi mat heilbrigðisstarfsmanns, t.d. iðjuþjálfa eða sjúkraþjálfara, á þörf fyrir rafknúinn hjólastól. Matið byggist fyrst og fremst á hvort viðkomandi hafi skertan kraft í handleggjum eða hvort handarfærni muni skaðast við not á handdrifnum hjólastól. Ennfremur er tekið tillit til heildargetu einstaklingsins. Rafknúnir hjólastólar eru jafnaði greiddir ef viðkomandi getur ekki notað handdrifinn hjólastól eða komist lengri ferðir á handdrifnum hjólastól.
Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvaða rafknúnir hjólastólar, hleðslutæki og rafgeymar eru keyptir í hverju tilviki og úthlutar þeim síðan til notkunar meðan þörf einstaklingsins er fyrir hendi.
Sjúkratryggingar Íslands meta hverju sinni hvort greiða skuli fyrir rafknúinn hjólastól til nota utandyra (skóla/vinnu) og handdrifinn hjólastól til nota heima eða öfugt (t.d. einstaklingur virkur heima í rafknúnum hjólastól en er með handdrifinn hjólastól þegar hann fer út, t.d. í dagvistun eða heimsóknir sem hann fer aldrei einn í). Einstaklingur sem á rétt á rafknúnum hjólastjól getur átt val um öflugan rafknúinn útihjólastól.
Einstaklingur 67 ára eða eldri sem er með skerta færni getur fengið úthlutað einfaldari rafknúnum hjólastól (svokallaðri rafskutlu) til að auðvelda sjálfstæða búsetu að uppfylltum almennum skilyrðum um rafknúna hjólastóla, sbr. hér að framan, enda sé ekki bifreið á heimili hans.
Sjúkratryggingar Íslands greiða að jafnaði ekki fyrir rafknúinn hjólastól vegna einstaklinga sem eru með mænuskaða nema skaði sé ofar en við 6. hálshryggjarlið (ofar en C6). Ef skaði er neðar þarf auk þess að vera fyrir hendi önnur fötlun, sjúkdómar eða aldurstengd vandamál til þess að þessir einstaklingar geti fengið rafknúinn hjólastól, t.d. blóðrásarvandamál, slitgigt/stoðkerfisvandamál, beinþynning, hormónabreytingar, ofþyngd.
Sjúkratryggingar Íslands greiða að jafnaði ekki fyrir rafknúna hjólastóla vegna barna fyrr en frá og með 6. aldursári (við upphaf skólagöngu).  

    • Stýrikerfi, aflbúnaður og aðrir aukahlutir fyrir hjólastóla

Greiðsluþátttaka SÍ 100% 

    •  Önnur farartæki

 Sjúkratryggingar Íslands greiða að jafnaði ekki kerrur og tilheyrandi fylgihluti fyrir börn yngri en tveggja ára.

    • Hjálpartæki við flutning fólks

 Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á hjálpartækjum sem falla hér undir.

Flutningsbretti og rennimottur 100%
Snúningsskífur 100%
Frístandandi rúmgálgar 100%
Rúmstigar og léttar 100%
Flutningsbelti (belti og/eða vesti með lyftihandfangi) 100%
Breytingar á flutningsbrettum 100%

    •  Snúningslök og snúningsmottur

 Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir snúningslök og snúningsmottur fyrir þá sem eru með sjúkdóma sem valda alvarlegri lömun eða hrörnun, t.d MS, MND og aðra vöðvarýrnunarsjúkdóma, helftarlömun, Parkinsonsjúkdóm, illvíga RA liðagigt, Spina bifida svo og einstaklingar með lungna- og/eða hjartajúkdóma á háu stigi. Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á snúningslökum. 

    •  Tæki til að lyfta fólki

 Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á hjálpartækjum sem falla hér undir.  

 Húsbúnaður

Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á sjúkrarúmum og fylgihlutum.

Á heimasíðu SÍ er að vinna Upplýsingahefti um samninga og vörulista sem hefur að geyma tæmandi yfirlit yfir allar þær tegundir hjálpartækja sem samningarnir ná til og sem stofnunin tekur þátt í kaupum á fyrir þá sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Við hvert og eitt hjálpartæki í vörulistanum í heftinu kemur einnig fram hvaða fyrirtæki er með samning við Sjúkratryggingar Íslands um kaup á viðkomandi tæki. Þátttaka í kaupum á ákveðnu hjálpartæki er háð því að tækið sé fengið hjá tilgreindu samningsbundnu fyrirtæki.

  •  Rúmborð

Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á les- og rúmborðum. Hilluborð á hjólum fyrir hjálpartæki, s.s. öndunarvél, hóstavél, og önnur lífsnauðsynleg tæki.

  •  Vinnustólar, standstólar og stólar fyrir börn

Sjúkratryggingar Íslands greiða að jafnaði fyrir stóla vegna þeirra sem eru með sjúkdóma sem valda alvarlegri lömun eða hrörnun, t.d. MS, MND og aðra vöðvarýrnunar sjúkdóma, helftarlömun, Parkinsonsjúkdóm, illvíga RA liðagigt og Spina bifida. Einnig geta einstaklingar með lungna- og/eða hjartasjúkdóm á háu stigi fengið greidda stóla, einkum standstóla. Metið er eftir færni hvort og hvenær viðkomandi eigi rétt á stól, t.d. göngufærni, úthaldi, stand- og/eða setjafnvægi. Greitt er fyrir stóla ef þeir leiða til aukinnar sjálfsbjargargetu og færni við athafnir daglegs lífs en ekki til að nota eingöngu í frístundum eða til afþreyingar. Val á stól fer eftir þörf sem er metin eftir færni og sjúkdómi.

Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki fyrir stóla sem hafa almennt notkunargildi en heimilt er að taka þátt í kostnaði vegna tiltekins aukabúnaðar eða séraðlögunar ef þess er þörf, t.d. vegna alvarlegrar skekkju/aflögunar í hrygg og/eða mjöðmum.

Stólar af lager hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands ganga fyrir nýkaupum á stólum.

  •  Rúm,barnarúm, rúmdýnur, skápúðar í rúm og fleira

Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um kaup á sjúkrarúmum og fylgihlutum.

Rúm og/eða önnur tæki tilheyrandi rúmi eru einungis greidd vegna fjölfatlaðra, hjarta og lungnasjúklinga með sjúkdóm á háu stigi sem verða að hafa hátt undir höfði og sjúklinga sem þarfnast mikillar umönnunar í rúmi. Rúmdýnur eru greiddar 100%, hámark kr. 36.000 í sjúkrarúm með öllu tilheyrandi.

Leguundirlag/yfirdýnur til varnar legusárum eru greiddar 100%.

  •  Aukabúnaður fyrir húsgögn

Upphækkunarklossar/-fætur 100% (vegna slysahættu eru einungis greiddir klossar undir rúm og sófa ef fætur mynda 90° horn við gólf)
Hjólabúnaður 100%

  •  Handrið og stoðir

Sjúkratryggingar greiða fyrir stuðningsbúnað fyrir þá sem eru með sjúkdóma sem valda alvarlegri lömun eða hrörnun, t.d MS, MND, og aðra vöðvarýrnunarsjúkdóma, helftarlömun, Parkinsonsjúkdóm, illvíga RA liðagigt, Spina bifida svo og einstaklingar með lungna- og/eða hjartasjúkdóm á háu stigi. Greitt 100%

  •  Dyra- og gluggaopnarar/-lokarar

Fjarstýrðir dyraopnarar að íbúð/húsnæði eru greiddir fyrir þá sem eru alvarlega fatlaðir og ráða ekki við að opna/loka dyrum og eru að jafnaði einir á ferð. Gluggaopnarar eru að jafnaði greiddir fyrir þá sem búa einir og þurfa þeirra með vegna skertrar færni.

Bílskúrsdyraopnari er einungis greiddur ef bílskúr er notaður sem inngangur að heimili. 

  •  Stokkalyftur, hjólastólalyftur, sætislyftur í stiga og skábrautir

Sjúkratryggingar Íslands leita ætíð tilboða í lyftur. Að jafnaði er ekki greitt fyrir lyftur nema upp á aðra hæð.

Heimilt er að greiða lyftur fyrir hjólastólanotendur og þá sem eru með mjög skerta göngugetu og nota gönguhjálpartæki á einkaheimili umsækjanda. Skilyrði er að umsækjandi þurfi nauðsynlega að nýta báðar hæðir húsnæðis (vegna frumþarfa), að húsnæðið henti m.t.t. fötlunar/færniskerðingar umsækjanda að öðru leyti og að ekki sé möguleiki á að skipta um húsnæði.

Greiðsluþátttaka nær ekki til kaupa á lyftum í nýbyggingar nema færniskerðing sé til komin það seint í byggingarferlinu að ekki sé unnt að breyta húsnæðinu. Heimilt er einungis að greiða fyrir stigaklifrara á einkaheimili ef ekki er hægt að koma fyrir lyftu eða til bráðabirgða vegna biðtíma eftir öðru húsnæði (Einkaheimili er skilgreint þar sem ríki/sveitarfélag kemur að kaupum og/eða rekstri heimilis).

  • Öryggisbúnaður á heimili

Öryggisgrindur og stigastólpar 50% (grindur og stólpar sem festir eru við tröppur, hurðir og glugga til að koma í veg fyrir fall)

 Hjálpartæki til tjáskipta, upplýsinga og viðvörunar

  •  Talgervill

Útbúnaður fyrir tölvutal (talgervill) er greiddur sem hjálpartæki fyrir fjölfatlaða sem geta ekki tjáð sig munnlega og þegar notagildið er ótvírætt og jafnvel eina leiðin til tjáskipta.
100% (hámarksstyrkur skv. verðkönnun hverju sinni)

  • Tölvur

Sjúkratryggingar Íslands greiða einungis fyrir tölvur sem eru hjálpartæki til tjáskipta vegna mjög mikilla örðugleika við munnleg og/eða skrifleg tjáskipti enda sé mikill sérútbúnaður forsenda fyrir notkun tölvunnar eða viðkomandi býr einn og notar tölvu sem einu tjáskiptaleiðina. Mat sérfræðings, s.s. iðjuþjálfa, sálfræðings eða sérkennara, verður að liggja fyrir á því hvort viðkomandi geti nýtt sér tölvu til tjáskipta, s.s. færnimat, þroskamat og greindarpróf.

Tölvur eru ekki greiddar fyrir einstaklinga sem hafa greindarvístölu undir 50. Áður en tölvu er úthlutað til þroskahamlaðs og/eða einhverfs einstaklings þarf að hafa farið fram lágmarksþjálfun og vera komin nægileg reynsla á hvort tölva auðveldi og bæti tjáskipti.

Að jafnaði eru tölvur ekki greiddar fyrir fjölfötluð börn fyrr en á því almanaksári sem þau ná sex ára aldri.

Almennt viðhald tölvu og prentara er á kostnað notanda en Sjúkratryggingar Íslands greiða viðgerðir á sérútbúnaði.
Tölvur 100% (hámarksstyrkur skv. verðkönnun hverju sinni)
Viðgerðir á tölvubúnaði 100%
Tölvutjáskiptabúnaður í rafknúna hjólastóla 100% (hámarksstyrkur skv. verðkönnun hverju sinni)
Vinna vegna tölvubúnaðar 100% (hámarksstyrkur skv. verðkönnun hverju sinni)

  •  Blaðflettarar

 Blaðflettarar 100%
 Viðgerðir á blaðfletturum 100%

  •  Dyrasímar, einföld innanhúskallkerfi

Kallkerfi (dyrasímar, dyrasímastyrksstillar og einföld innanhúskallkerfi/-hringkerfi) 50%
Uppsetningar á dyrasíma 50%
Breytingar á dyrasíma 50%

  •  Samtalshjálpartæki

 Bókstafa- og táknsett 100%
 Bókstafa- og tákntöflur 100%
 Samtalstæki, flytjanleg 100%
 Forrit fyrir samtöl 100%

  •  Viðvörunarhjálpartæki

Merkibúnaður 100% (t.d. bjöllur og blikkljós)
Rafstýrð dagatöl og minnishjálpartæki 100% (rafstýrð tæki til að skipuleggja og minna á athafnir og tíma, geta verið með innbyggðu tali)

  • Viðvörunarkerfi

Öryggiskallkerfi:
Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samninga um öryggiskallkerfisþjónustu. Greiðsla stofnunarinnar er háð því að þjónusta sé fengin hjá samningsbundnum fyrirtækjum. 

Viðvörunarbúnaður vegna hættu:
Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að taka þátt í greiðslu vegna viðvörunarbúnaðar
vegna hættu, svo sem af völdum hita, elds eða reyks, fyrir þá sem eru með skert minni vegna elliglapa eða heilaskaða.

Öryggiskallkerfi (til ytra kalls í gegnum símakerfi), fastur styrkur m/ákv. hámarki kr. 8.100 í frumuppsetningu og kr. 5.500 í mánaðargjaldi
Krampaviðvörunartæki fyrir flogaveika 70%
Viðvörunarbúnaður vegna hættu, s.s. af völdum hita, elds eða reyks 50% (t.d. fyrir eldavélar)
Uppsetning á krampaviðvörunartæki fyrir flogaveika 70% þegar þess þarf (styrkur skv. verðkönnun hverju sinni).

 Hjálpartæki til að meðhöndla tæki eða hluti

  •  Stjórntæki

Rofar 100%.

  •  Inntaksbúnaður fyrir tölvur

Músatæki 100% (s.s. stýristautar (stýripinnar), snertiskjáir og stýrikúlur).

  • Hjálpartæki til stjórnunar á umhverfi

Fjarstýrikerfi 100%, forrit fyrir fjarstýrikerfi 100% og uppsetning á fjarstýrikerfi 100%.

  •  Hjálpartæki vegna skertrar færni í höndum/fingrum

Haldarar, líkamsbornir, fyrir ennis-, höku- og munnpinna 100%.
Statíf (t.d. vökvastatíf vegna næringar um slöngu eða í æð) 100%.
Stýripinnar (s.s. ennis-, höku- og munnpinnar) 100%.
Bendiljós 100%.
Framhandleggsstuðningur 100%.
Lyklaborðshlíf 100%.

  • Tæki til framlengingar

Griptangir 100%.
Framlengingar án grips 100%.

  •  Tæki til skorðunar

Grindur/haldarar 100% (t.d. haldarar fyrir bolla/glös/hnífapör).

Aðrir styrkir hjá SÍ

Heyrnartæki

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) veita styrki til kaupa á heyrnartæki, styrkur er veittur á fjögurra ára fresti. Til að sækja um styrk þarf EKKI að útfylla sérstakt eyðublað, heldur skilar umsækjandi inn frumriti reiknings, heyrnarmælingu og upplýsingum um bankareikning. 

Næring og sérfæði

Sjúkratryggingar Íslands veita styrk til kaupa á sérfæði og næringarefnum ef einstaklingur glímir við veruleg vandkvæði við fæðuinntöku. Þetta er gert til að mæta orkuþörf viðkomandi. Um er að ræða mikið lystarleysi, efnaskiptagalla, ofnæmi eða frásogsvandamál svo dæmi séu tekin. Á vefsíðunni Greiðsluþátttaka vegna næringar og sérfæðis er greint frá hvernig á að sækja um greiðsluþátttökuna.

Umsóknir og viðgerðir

Sækja um hjálpartæki

Læknisvottorð þarf að fylgja fyrstu umsókn. Öllum umsóknum þarf að fylgja lýsing á færni umsækjanda og rök fyrir hjálpartæki. Við val á hjálpartækjum er gott að hafa samband við fagaðilia, t.d. sjúkraþjálfara sem þekkir til þeirra tækja sem í boði eru á markaðnum.

Best er að sækja um hjálpartæki í samráði við sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa eða lækni.

Til að sækja um eða endurnýja hjálpartæki þarf að fylla út eyðublað og gátlista með umsókn skila því inn til hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands, Vínlandsleið 16, 113 Rvk. Gátlistinn auðveldar mat og úthlutun á hjálpartækjunum.

Hámarksafgreiðslutími umsókna um hjálpartæki er fimm vikur frá móttöku fullnægjandi umsóknar. 

Viðgerð á hjálpartækjum

Starfsfólk verkstæðis Hjálpartækmiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands annast sérsmíði og aðstoð við aðlögun hjálpartækja fyrir notendur eða tryggja að aðrir aðilar annist það.  Starfsfólk verkstæðis sér þar að auki um viðhald og viðgerðir á hjálpartækjum í eigu Sjúkratrygginga Íslands eftir að ábyrgð seljanda er útrunnin.  Athugið að Hjálpartækjamiðstöð annast ekki uppsetningu á stuðningsstöngum, bað- eða salernishjálpartækjum hvort sem um er að ræða tæki frá Hjálpartækjamiðstöð eða seljendum.

Æskilegt er að hafa samband við starfsfólk verkstæðis hjá hjálpartækjamiðstöðvar  í síma 515-0100 til að fá upplýsingar um hvort hægt sé að sinna erindinu meðan beðið er.  Verkstæðið að Vínlandsleið 16 í Reykjavík er opið kl. 10:00 -15:00 alla virka daga.

Sjúkratryggingar Íslands eru með samninga um viðgerðir á hjálpartækjum við eftirfarandi fyrirtæki á landsbyggðinni:

Akureyri, Húsavík, Þórshöfn

Rafeyri ehf.: Norðurtanga 5, 600 Akureyri, sími 461 1221, gsm 898 9869, netfang rafeyri(hja)rafeyri.is.  

Húsavík: Sími 869 2492

Þórshöfn: Sími 896 0993

Vestmannaeyjar

Geisli ehf.: Hilmisgötu 4, 900 Vestmannaeyjum, sími 481 3333, netfang geisli(hjá)geisli.is.

Ísafjörður

Rafskaut ehf.: Suðurtangi 7, 400 Isafjordur, sími 456 4742, netfang rafskaut(hjá)rafskaut.is.

Egilsstaðir

Rafey ehf.: Miðási 11, 700 Egilsstaðir, sími 471 2013, netfangrafey(hjá)rafey.is.