Móttökuáætlun í grunnskóla

Kveðið er á um það í lögum nr. 585/2010 að skólaskyld börn fái sérstakan stuðning í skólastarfi til samræmis við metnar sérþarfir þeirra. Í lögunum er greint frá réttindum barnanna, skyldum sveitarfélaga og að það sé á ábyrgð skólastjóra grunnskóla að mæta þörfum barnanna í samráði við foreldra og kennara. Þá eiga allar persónuupplýsingar og greiningargögn um barnið, sem eru nauðsynleg fyrir velferð þess og aðlögun í grunnskóla, að fylgja barninu frá leikskóla í grunnskóla. Það verður að greina foreldrum frá þessari upplýsingamiðlun.

Einstaklingsnámskrá og móttökuáætlun

Í III. kafla laganna um skipan náms og kennslu er kveðið á um þá skyldu grunnskólans að útbúa einstaklingsnámskrá fyrir hvern og einn nemanda með sérþarfir. Grunnskólum ber að útbúa sérstaka móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir til að mæta þörfum þeirra sem best og fá samfellu í þjónustuna við þá. Móttökuáætlunin þarf að lúta að mörgum þáttum, allt frá aðstöðu, kennsluháttum og samvinnu starfsmanna skólans og fleiri aðila ef þarf. Greint er frá móttökuáætluninni í 9. grein laganna:

Auk almennrar móttökuáætlunar skv. 16. gr. laga um grunnskóla skulu grunnskólar útbúa móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir. Í slíkri áætlun skal m.a. gera grein fyrir samstarfi innan skólans um skipulag kennslunnar, aðbúnaði, aðstöðu, notkun hjálpartækja, skipulagi einstaklingsnámskrár, kennsluháttum og námsmati, hlutverki umsjónarkennara, sérkennara og annarra fagaðila innan skólans og samstarfi við foreldra. Tilgreina skal áform skólans um stuðning við nemendur til félagslegrar þátttöku og virkni í skólasamfélaginu, svo sem í félagslífi og tómstundastarfi skólans. Í slíkri áætlun skal einnig gera grein fyrir samstarfi við aðra aðila utan skólans.

(Heimild: https://island.is/reglugerdir/nr/0585-2010)

Reglugerðin um stuðning við nemendur með sérþarfir í grunnskóla er vel fram sett í átta köflum með lýsandi fyrirsögnum. Lestur allrar reglugerðarinnar er afar fróðlegur.