Sólblómið sýnir ósýnilega fötlun

Sólblómabandið er tákn um ósýnilega fötlun. Sá sem ber sólblómabandið um hálsinn sýnir á látlausan hátt að hann hefur ósýnilega fötlun.

Sólblóminu er þannig ætlað að vekja athygli fólks á þeim áskorunum sem einstaklingar með ósýnilega fötlun standa frammi fyrir á hverjum degi.

Víðtæk þekking á merkingu sólblómsins í samfélaginu stuðlar að meiri stuðningi við fólk með ósýnilega fötlun við hversdagslegar athafnir, t.d. í þjónustu, á stofunum og á meðal almennings.

Stefnt er að því að öll sem sjá sólblómaband um hálsinn á fólki átti sig á að viðkomandi þarf sérstakan stuðning eða örlítið lengri tíma þótt engin fötlun sjáist á honum.

 

Sólblómið á Íslandi

Einstök börn hafa fengið aðild að samtökunum Hidden Disabilities Sunflower (Sólblómið, tákn um ósýnilega fötlun). Samtökin vinna með víðfeðmu stuðningsneti hagsmunasamtaka fólks með ósýnilega fötlun á heimsvísu. Einstök börn hafa því stækkað tengslanet sitt um allan heim og aukið aðgang sinn að torsóttri þekkingu á sjaldgæfum sjúkdómum.

Einstök börn útvega félagsmönnum sínum með ósýnilega fötlun sólblómabandið þeim að kostnaðarlausu á skrifstofu félagsins að Urðarhvarfi 8A eða sendir þeim sólblómabandið í pósti, einnig þeim að kostnaðarlausu.

Í Leifsstöð býðst flugfarþegum með ósýnilega fötlun að bera sólblómabandið á meðan þeir fara í gegnum flughöfnina.

Sólblómið um víða veröld

Sólblómið er vel þekkt í Bretlandi, enda hannaði breskt einkafyrirtæki, Hidden Disabilities Sunflower Scheme ltd., Sólblómið árið 2016 sem tákn fyrir fólk með ósýnilega fötlun og stofnaði samtök um verkefnið.

Sólblómið er ekki ætlað til endursölu heldur skulu aðildarfélög samtaka Sólblómsins úthluta félagsmönnum sínum hálsbandið þeim að kostnaðarlausu.

Nú þegar hefur fjöldi samtaka og stofnana um allan heim tekið Sólblómið í notkun. Þau lönd sem eiga aðild að bresku samtökum um Sólblómabandið eru Ástralía, Belgía, Kanada, Danmörk, Írland, Holland, Nýja Sjáland, Bandaríkin og nú Ísland. Sólblómið er notað á um 130 flugvöllum, 450 háskólum, lestarkerfum, menningarstofnunum, heilbrigðisstofnunum, fjármálastofnunum, verslunarmiðstöðvum og enn víðar í þessum löndum.

Sækja um sólblómaband