Samþætt þjónusta í þágu farsældar barna

Lög  nr. 86/2021 voru sett um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Megintilgangur með lögunum er að veita börnum og foreldrum sem þess þurfa aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. 

Í 2. gr. laganna, Orðskýringar, í 5. og 8. lið, er útskýrð merking hugtakanna „Farsældarþjónusta“ og „Samþætt þjónusta í þágu farsældar barns:

  1. Farsældarþjónusta: Öll þjónusta sem mælt er fyrir um í lögum að sé veitt á vegum ríkis eða sveitarfélaga og á þátt í að efla og/eða tryggja farsæld barns. Farsældarþjónusta nær frá grunnþjónustu sem er aðgengileg öllum börnum og/eða foreldrum til frekari stigskiptrar einstaklingsbundinnar þjónustu, m.a. á sviði menntamála, heilbrigðismála, löggæslu, félagsþjónustu og barnaverndar.
  2. Samþætt þjónusta í þágu farsældar barns: Skipulögð og samfelld þjónusta sem hefur það að markmiði að stuðla að farsæld barns og er veitt af þeim þjónustuveitendum sem eru best til þess fallnir að mæta þörfum barns hverju sinni. 

Markmið samþættrar þjónustu

  • Að allt samstarf í þjónustu við börn fari í skýran farveg.
  • Að börn að 18 ára aldri og foreldrar þeirra hafi aðgang að samþættri þjónustu án hindrana þegar þörf krefur. Þau eiga að hafa aðgang að tengilið eða málstjóra sem vísar þeim áfram ef þarf.
  • Hlutverk þeirra sem veita börnum og foreldrum þjónustu er:
    • að fylgjast með velferð og farsæld allra barna.
    • að bregðast við þörf fyrir þjónustu.
    • að hafa samráð sín á milli til að veita góða þjónustu við hæfi.

Þjónustuveitendur

  • Þeir sem veita farsældarþjónustu á vegum stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga einnig einkaaðilar sem veita þjónustuna á vegum ríkis og sveitarfélaga, t.d. samkvæmt þjónustusamningi. Þjónustuveitendur geta einnig verið t.d. leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, framhaldsskólar, heilsugæslan, sérhæfð heilbrigðisþjónusta, lögreglan, félagsþjónustan og barnavernd.
  • Aðrir sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna en starfa hvorki á vegum ríkis né sveitarfélaga eru t.d. sjálfstætt starfandi sérfræðingar, íþrótta-, lista- og æskulýðsstarf, annað tómstundastarf og frjáls félagasamtök. Þessir aðilar hafa sömu skyldum að gegna og þjónustuveitendur að leiðbeina foreldrum og barni um tengilið og samþættingu þjónustu.

Að koma á samþættri þjónustu

  • Þeir sem starfa við þjónustu í þágu farsældar barna og verða þess áskynja að þörfum barns sé ekki mætt á fullnægjandi hátt eiga að leiðbeina foreldrum eða barni um samþættingu þjónustu.
  • Þeir sem starfa við þjónustu í þágu farsældar barna geta miðlað upplýsingum til tengiliðar ef foreldri eða barn óskar eftir því. Beiðnin er sett fram á þar til gerðu eyðublaði.
  • Samþætting er háð því að foreldrar og barn setji fram formlega beiðni um samþættingu á þar til gerðu eyðublaði.
  • Foreldrar og börn geta einnig sjálf óskað eftir samþættingu beint við tengilið eða málstjóra. 

Tengiliðir við samþættinguna

Tengiliðir eru víða í samfélaginu þar sem börn og foreldrar þiggja þjónustu:

  • Heilsugæslan: Á meðgöngu og fram að skólagöngu barns.
  • Starfsmaður skólans: Leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli.
  • Starfsmaður félagsþjónustu: Í sérstökum aðstæðum, t.d. þegar barn er ekki í skóla.

Tengiliður fær erindi:

  • Að frumkvæði foreldris/barns, eða að beiðni foreldris eða barns um að aðrir komi erindinu til skila.
  • Öll börn og foreldrar hafa aðgang að tengilið.
  • Þeir sem veita þjónustu geta vísað máli til tengiliðar að beiðni foreldris eða barns. 

Hlutverk tengiliðs:

  • Að taka við beiðni foreldra um samþættingu.
  • Að skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu.
  • Að koma máli í hendur málstjóra eftir atvikum.

Málstjórar í samþættri þjónustu

  • Málstjóri hefur yfirgripsmikla þekkingu á farsældarþjónustu. Hann getur verið t.d.  starfsmaður félagsþjónustu eða barnaverndarþjónustu eftir þörfum. 
  • Málstjóri fær erindi sitt með beiðni um samþættingu þjónustu frá tengilið eða öðrum sem veita barni eða foreldrum þess þjónustu þegar ætla má að barn þurfi fjölþætta þjónustu á öðru eða þriðja stigi til lengri tíma. 

Hlutverk málstjóra:

  • Málstjóri aflar upplýsinga um aðstæður barns og skipuleggur samþættingu þjónustunnar.
  • Málstjóri setur á fót stuðningsteymi fulltrúa sem veita barninu þjónustu, stýrir stuðningsteyminu og ber ábyrgð á gerð stuðningsáætlunar. Stuðningsáætlun getur falist í mati eða greiningu á þörfum barns, markmiði með þjónustunni, árangri hennar, endurmati og endurnýjun eða með rökstuddri niðurstöðu um að ljúka máli án stuðningsáætlunar. Málstjóri kynnir foreldrum og tengilið um stöðuna.

Stigskipting þjónustu á þágu farsældar barna

Skylda er að skilgreina alla farsældarþjónustu og eðli hennar. Þjónustustigin eru þrjú eftir þörfum barns og umfangi þjónustunnar.

  • Fyrsta stig þjónustu:
    • Grunnþjónusta sem er öllum aðgengileg.
    • Einstaklingsbundinn og snemmtækur stuðningur í samræmi við frummat á þörfum og eftirfylgd.
    • Stuðningur við farsæld.
  • Annað stig þjónustu:
    • Einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur í samræmi við faglegt mat eða frumgreiningu.
    • Að veita þjónustu á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu.
    • Að tryggja farsæld.
  • Þriðja stig þjónustu:
    • Einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu.
    • Að veita þjónustuna á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu.
    • Tryggt er að farsæld verði ekki hætta búin.

Upplýsingarnar að ofan eru útdráttur af glærum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem Barna- og fjölskyldustofa gaf út.