Sólblómið - sýnir hið ósýnilega

Látlaus leið til að gera hið ósýnilega sýnilegt til þess að auka skilning

Hvað táknar sólblómið og hvert er hlutverk þess?

Mynd af sólblómi á hálsböndum er táknræn merking fyrir ósýnilega fötlun. Sá sem ber hálsbandið með sólblóminu sýnir á látlausan hátt að hann hefur ósýnilega fötlun.

Sólblóminu er þannig ætlað að vekja athygli fólks á þeim áskorunum sem einstaklingar með ósýnilega fötlun standa frammi fyrir á hverjum degi. Víðtæk þekking á merkingu sólblómsins í samfélaginu stuðlar að meiri stuðningi við fólk með ósýnilega fötlun við hversdagslegar athafnir, t.d. í þjónustu, á stofunum, meðal almennings og víðar.

Öll þau sem sjá sólblómið um hálsinn á manneskju, t.d. fólk í þjónustu, heilbrigðisstofnunum og víðar, átta sig á að viðkomandi þarf sérstakan stuðning eða örlítið lengri tíma þótt viðkomandi beri það ekki með sér.  Bandið er beiðni um að það þarf að sýna viðkomandi skilning, tillitssemi og þolinmæði. Það gæti verið vinalegt að bjóða fram hjálparhönd.

         

Sólblómið á Íslandi

Einstök börn hafa fengið aðild að samtökunum Sólblómið - tákn fólks með ósýnilega fötlun (e. Hidden Disabilities Sunflower). Samtökin vinna með víðfeðmu stuðningsneti hagsmunasamtaka fólks með ósýnilega fötlun á heimsvísu. Einstök börn hafa því stækkað tengslanet sitt um víða veröld og taka nú höndum saman með þeim sem vinna að því að auka skilning og samkennd á ósýnilegum áskorunum.

Einstök börn útvega sínum félagsmönnum, sem hafa ósýnilega fötlun, sólblóma-hálsbandið þeim að kostnaðarlausu á fjölskyldusetri félagsins að Urðarhvarfi 8, A-inngangi, 3. hæð í Kópavogi.  Fylla skal út umsókn hér á vef Einstakra barna til að fá sólblómabandið sent heim. 

Í Leifsstöð geta flugfarþegar með ósýnilega fötlun fengið Sólblómabönd að láni í flughöfninni.

Hvar þekkist Sólblómið?

Sólblómið er vel þekkt í Bretlandi, enda hannaði breskt einkafyrirtæki, Hidden Disabilities Sunflower Scheme ltd., Sólblómið árið 2016 sem tákn fyrir fólk með ósýnilega fötlun og stofnaði samtök um verkefnið. 

Sólblómið er ekki ætlað til endursölu heldur skulu aðildarfélög samtaka Sólblómsins úthluta félagsmönnum sínum hálsbandið þeim að kostnaðarlausu.

Nú þegar hefur fjöldi samtaka og stofnana um allan heim tekið Sólblómið í notkun. Þau lönd sem eiga aðild að bresku samtökum um Sólblómabandið eru Ástralía, Belgía, Kanada, Danmörk, Írland, Holland, Nýja Sjáland, Bandaríkin og nú Ísland. Sólblómið er notað á um 130 flugvöllum, 450 háskólum, lestarkerfum, menningarstofnunum, heilbrigðisstofnunum, fjármálastofnunum, verslunarmiðstöðvum og enn víðar í þessum löndum.